Search
Close this search box.

Loftslagskvíði

Loftslagskvíði

Stutta svarið

Er tilfinning sem felur í sér kvíða, áhyggjur eða óvissu vegna loftslagsbreytinga.

Lengra svar

Fólk með mikinn loftslagskvíða óttast til dæmis að Jörðin og heimurinn séu alveg að líða undir lok vegna mengunar og loftslagsbreytinga. Hugtakið umhverfiskvíði er sambærilegt. Umhverfiskvíði er í raun víðtækari útgáfan af loftslagskvíða og nær yfir fleiri umhverfismál en þau sem tengjast loftslagsbreytingum. Rúmlega 20% landsmanna finnur fyrir umhverfiskvíða. Ungt fólk er í meirihluta þeirra sem finna fyrir umhverfiskvíða, en 35% ungs fólks finnur fyrir honum. Aðeins 6% Íslendinga hafa engar áhyggjur af loftslagsbreytingum en aðrir hafa litlar, þó nokkrar eða miklar áhyggjur.


Loftslagskvíði er að mörgu leyti sambærilegur öðrum kvíða. Við eigum það til að finna fyrir kvíða þegar okkur finnst eitthvað ógna okkur. Það merkilega við kvíða er að hann kemur þegar okkur er ógnað en líka þegar við upplifum eða hugsum um ógn. Að upplifa kvíða er ekki hættulegt en getur verið óþægilegt. Kvíði er náttúrulegt viðbragð líkamans sem er til staðar akkúrat á þeirri stundu sem við skynjum ógn. Það er mikilvægt að tala um það ef þessi tilfinning bankar oft upp á.


Loftslagskvíði er mjög raunverulegur og þegar við stöndum frammi fyrir einhverju sem ógnar okkur er ekkert skrítið að við verðum kvíðin, vonlaus, döpur, pirruð eða jafnvel reið. Allskonar tilfinningar geta látið á sér kræla og þá er gott að muna að tilfinningar eru ekki hættulegar þó þær geti verið óþægilegar. Þegar við upplifum kvíða þá eykst blóðflæði til stórra vöðva og minnkar til handa og fóta. Stundum sér fólk hendur og fætur fölna eða finnur fyrir máttleysi, kulda og doða. Hjartsláttur verður hraður og við öndum örar, sumir finna jafnvel fyrir svima og óraunveruleikatilfinningu. Við getum upplifað magaverki og sjóntruflanir á meðan kvíðinn stendur yfir.


Hvað er hægt að gera við loftslagskvíða? Meðvitund um eigin tilfinningar er mjög mikilvæg. Gott er að vera á varðbergi gagnvart þeim hugsunum sem kunna að koma upp í tengslum við loftslagshamfarir. Þegar við upplifum vonleysi, þá þurfum við að minna okkur á það sem við getum raunverulega gert. Hóflegar áhyggjur af einhverju geta hjálpað okkur að bregðast við og gera eitthvað, en ef við höfum of miklar áhyggjur er hætta á því að okkur geti farið að líða mjög illa og draga okkur í hlé.


Áhyggjur og kvíði geta verið fyrsta skrefið til umbreytinga, t.d. að hætta með ákveðna ósjálfbæra hegðun eða að verða virkur í stjórnmálum eða félagasamtökum. Að breyta kvíða í uppbyggilegri von og staðfastri bjartsýni er fyrst og fremst hægt að ná með virkni í daglegu lífi með það að leiðarljósi að vonir um betri heim geti orðið að veruleika. Þegar fólk finnur sig sem hluta af lausninni fær það styrk og gleði.


Sjá einnig: loftslagsbreytingar

Greinum áhyggjur okkar og áttum okkur á því hvort við getum gert eitthvað í stöðunni eða ekki.

Grænfáninn og Umhverfisfréttafólk eru verkefni hjá Landvernd

© 2024 Vefsíðugerð: webdew.is